Forsetar KM 2010 til 2020

2010–2020: Fagvæðing og keppnismatreiðsla í forgrunni
Áratugurinn frá 2010 til 2020 markaði nýtt skeið í sögu Klúbbs Matreiðslumeistara. Félagið varð faglegra í uppbyggingu sinni, landsliðið tók stór skref fram á við og keppnismatreiðsla varð sífellt mikilvægari sem hornsteinn í starfi klúbbsins.
Hafliði Halldórsson – forseti 2010–2015
Hafliði Halldórsson leiddi klúbbinn í gegnum mikilvæga umbreytingu og fagvæðingu. Hann hafði skýra framtíðarsýn um hvernig bæði klúbburinn og Kokkalandsliðið ættu að þróast – með skýru skipulagi, markaðssetningu og faglegri umgjörð.
Á forsetatíð Hafliða hófst algjör endurskipulagning á Kokkalandsliðinu. Reglulegar og sýnilegar æfingar urðu að normi, nýtt lógó var tekið í notkun og liðið fékk faglegri ímynd á öllum sviðum, jafnt innanlands sem erlendis. Hann lagði áherslu á að byggja upp ungt lið með sterku siðferði og fagmennsku, hvatti til þverfaglegs samstarfs við fyrirtæki og aðra fagaðila, og sá til þess að landsliðið væri komið á kortið sem öflugur fulltrúi Íslands í alþjóðlegum keppnum.
Þar kom líka skýrt fram að Kokkalandsliðið þyrfti að vera sýnilegra og ásýndin sterkari. Hafliði fór í markvissa ásýndarvinnu með það að markmiði að búa til heildarásýnd fyrir klúbbinn og liðið, með hin Norðurlöndin sem fyrirmynd. Markmiðið var að auka faglega umgjörð í kringum það sem KM stendur fyrir og hanna ásýndarmerki sem auðveldara væri að nýta, meðal annars á samfélagsmiðlum.
Hann áttaði sig líka á því að ekki væri hægt að treysta alfarið á sjálfboðaliða. Klúbburinn þyrfti að stíga upp og setja á laggirnar skrifstofu til að styðja faglegt starf. Þó það hafi ekki raungerst strax þá varð þessi framtíðarsýn að veruleika árið 2025, þegar skrifstofa KM var loksins opnuð.
Vegferð Hafliða lagði þannig grunninn að þeirri fagmennsku og stefnu sem landsliðið og klúbburinn standa fyrir í dag.
Björn Bragi Bragason – forseti 2015–2020
Björn Bragi Bragason tók við forsetaembættinu árið 2015 og hélt áfram þeirri vegferð sem Hafliði hafði hrundið af stað. Hann lagði þó áherslu á að setja keppnismatreiðsluna í algjöran forgrunn, því hún átti hug hans og hjarta.
Björn Bragi var sannfærður um að keppnir væru besta leiðin til að efla faglega færni, skapa metnað og gera íslenska kokka sýnilega sem skapandi og metnaðarfulla fagaðila. Á forsetatíð hans var því lögð rík áhersla á að efla keppnisanda, faglega þjálfun og keppnisstarf innan klúbbsins og landsliðsins.
Með sinni sýn hélt Björn Bragi áfram að styrkja stöðu klúbbsins sem fagfélags sem byggði á samkeppni, fagmennsku og stolti yfir íslenskri matargerð. Hann skildi eftir sig arf þar sem keppnismatreiðsla var hjarta starfsins, og sú áhersla hefur lifað áfram í starfi klúbbsins.
Arfleifðin 2010–2020
Með Hafliða og Birni Braga við stjórnvöl var klúbburinn færður inn í skeið þar sem fagmennska og keppnismatreiðsla voru samofin. Hafliði lagði grunn að faglegri umgjörð og ásýnd, en Björn Bragi hélt vegferðinni áfram með því að gera keppnismatreiðslu að kjarnanum í starfinu.
Saman mótuðu þeir klúbbinn sem fagfélag með skýra stefnu og sterka sjálfsmynd – þar sem fagmennska, ásýnd og keppnisandi voru sameinaðir til að lyfta íslenskri matargerð á nýjar hæðir.
