Norræna nemakeppnin 2026
Norræna nemakeppnin 2026
Forkeppni fyrir Norrænu nemakeppnina í matreiðslu og framreiðslu fór fram laugardaginn 8. nóvember 2025 í Menntaskólanum í Kópavogi. Þar kepptu hæfileikaríkir íslenskir nemar um sæti í lokakeppninni sem fram fer 19.–21. apríl 2026 í Grythyttan í Svíþjóð.
Keppnin markaði mikilvægan áfanga í starfi ungra iðnnema í matreiðslu og framreiðslu, þar sem fagmennska, metnaður og sköpunargleði voru í fyrirrúmi.
Matreiðsla
Matreiðslunemar hófu daginn á skriflegu prófi áður en þeir tóku til við verklega keppni þar sem reyndi á útsjónarsemi, tæknilega færni og hugmyndaauðgi.
Keppendur elduðu tvo rétti:
- Aðalréttur: „Mystery basket“, þar sem hráefnin voru opinberuð á keppnisdegi.
- Eftirréttur: Þar þurfti að nýta Freyju rjómasúkkulaði, Lavazza kaffi, Pink Lady epli og Mysing.
Elda þurfti fyrir sex manns og var ekki heimilt að koma með nein hráefni að heiman.
Úrslit í matreiðslu:
- 1. sæti: Hákon Orri Stefánsson – Fröken Reykjavík
- 2. sæti: Aron Fannar Þrastarson – Nomy
Framreiðsla
Framreiðslunemar hófu einnig daginn á skriflegu prófi áður en þau mættu í fjölbreytt verkleg verkefni sem reyndu á bæði færni og faglegt viðmót.
Verkefnin voru meðal annars:
- Að blanda tvo drykki á Vínstúkunni
- Að sýna færni í eldsteikingu
- Að setja upp kvöldverðaborð fyrir fjóra
- Að para vín við mat
- Að brjóta servíettur á skapandi hátt
Úrslit í framreiðslu:
- 1. sæti: Freyja Dröfn Bjarnadóttir – Oto
- 2. sæti: Árný Lind Berglindardóttir – Kol Restaurant





















