Hátíðarkvöld Klúbbs matreiðslumeistara 2026

Kæru gestir Hátíðarkvölds Klúbbs matreiðslumeistara,

Fyrir hönd Klúbbs matreiðslumeistara og Kokkalandsliðsins vil ég færa ykkur einlægar þakkir fyrir að vera með okkur á Hátíðarkvöldi Klúbbs matreiðslumeistara.


Kvöldið var sannkölluð hátíð þar sem fagmennska, sköpunarkraftur og samvinna stóðu í fyrirrúmi. Framúrskarandi matreiðslumenn leiddu hver sinn rétt með dýrmætri aðstoð fjölda matreiðslumanna og matreiðslunema, sem sýndu enn á ný þann metnað sem íslensk matarmenning byggir á. Við kunnum jafnframt bestu þakkir þeim samstarfsaðilum sem lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið að þeirri upplifun sem það varð.


Auk allra félaga í Klúbbi matreiðslumeistara sem komu að viðburðinum viljum við sérstaklega þakka Barþjónaklúbbi Íslands, sem sá til þess að þjónustan gengi hnökralaust fyrir sig, sem og Vínþjónasamtökum Íslands sem sáu um vínpörun kvöldsins af mikilli fagmennsku. Dagmar Haraldsdóttir og Sandra Ýr Dungal höfðu umsjón með skipulagningu viðburðarins og Elísa Guðmundsdóttir hjá 4 árstíðum sá um blómaskreytingar. Starfsfólk Hörpu tryggði með sinni fagmennsku að allt gengi upp.


Þó að hér séu nefndir nokkrir lykilaðilar komu mun fleiri að framkvæmd viðburðarins, sem ekki er unnt að telja upp í þessum pósti, og kunnum við þeim öllum einlægar þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag.

 
Slíkur viðburður verður aldrei að veruleika nema með öflugri þátttöku og stuðningi gesta. Þú, góði gestur, ert órjúfanlegur hluti af þessari heild og án þín væri Hátíðarkvöldverðurinn ekki mögulegur.


Meðfylgjandi eru hlekkir á myndbönd og myndir frá kvöldinu sem fanga stemninguna og augnablikin sem við munum lengi minnast.


Við þökkum ykkur kærlega fyrir samveruna og hlökkum til að halda áfram að byggja þessa hefð með ykkur.


Með kærri kveðju,

Þórir Erlingsson